Stefnendur fengu arðgreiðslur frá félagi sem skráð var með skattalega heimilisfesti í Danmörku og greiddu fjármagnstekjuskatt af þeim að hluta til danska ríkisins. Í kjölfar þess að ríkisskattstjóri úrskurðaði félagið heimilisfast á Íslandi aftur í tímann fékkst skatturinn endurgreiddur frá dönskum skattyfirvöldum. Í málinu var deilt um það hvort stefnda, íslenska ríkinu, hefði verið rétt að bæta 2,5% álagi skv. 122. gr. tekjuskattslaga við greiðslurnar og m.a. gerð krafa um ógildingu úrskurðar yfirskattanefndar þar að lútandi. Dómurinn leit til þess að orðið hefði mismunur á álögðum tekjuskatti stefnenda og staðgreiðslu þeirra og taldi ekki efni til að fallast á málsástæður þeirra um viðtökudrátt, ómöguleika eða réttmætar væntingar. Þá voru mistök við lagasetningu í tíð eldri laga ekki talin hafa þýðingu í málinu auk þess sem málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hefðu ýmist ekki verið brotnar eða leiddu ekki til ógildingar úrskurðarins. Var stefndi sýknaður af kröfum stefnenda.